"Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar séu vakandi yfir því efni sem börnin þeirra setja á netið, skoða á netinu og ekki síst tölvuleikjunum sem þau spila. Börn og ungmenni hafa verið fljót að tileinka sér nýjungar og standa oft foreldrum sínum langtum framar í þessum efnum.""
"Neteinelti er þegar símar, spjallforrit, tölvupóstar eða samfélagsvefir eru notaðir til að áreita, hóta eða ógna einhverjum endurtekið. Þar sem börn hafa stöðugt greiðari aðgang að tækjum með netaðgangi hefur neteinelti færst í aukana. Þeir aðilar sem ætla sér að leggja í neteinelti geta gert það með nafnleynd og því getur oft verið erfitt að finna gerendur. Einelti sem framkvæmt er í skjóli nafnleyndar er ekki minna skaðlegt en það einelti sem fer fram augliti til auglitis."